Björgvinsbeltið er hannað af Björgvini Sigurjónssyni, stýrimanni og skipstjóra frá Vestmannaeyjum árið 1982. Búnaðurinn var viðurkenndur af Siglingastofnun í mars 1990.
 
Björgvinsbeltið hafði áður verið framleitt af Reykjalundi en ekki verið í framleiðslu í nokkurn tíma, en nú hefur fyrirtækið Pétó ehf keypt réttinn á því og hefur hafið framleiðslu á beltunum á þeirra heimaslóð, í Vestmannaeyjum.
 
Pétó ehf er í eigu Gríms Guðnasonar og eiginkonu hans, Eyglóar Kristinsdóttur. Fyrir áttu þau fyrirtækin Slökkvitækjaþjónusta Vestmannaeyja og Gúmmíbátaþjónusta Vestmannaeyja. Þessi þrjú fyrirtæki eiga það sameiginlegt að stuðla að öryggi fólks, bæði á láði og legi og er mikið lagt uppúr að gæðin séu þau mestu mögulegu og að notuð séu eingöngu efni sem hafa verið viðurkennd og eru sterk og endingargóð.